Yfirheyrslan

Yfirheyrslan

1867
Deila

Kotrusambandið mun birta á næstu dögum yfirheyrslur landsliðsmanna, fram að Evrópumótinu í Budapest, fyrstur í yfirheyrslu Kotrusambandsins er sjálfur Ingi Tandri Traustason.

1)Nafn?                                                                                                                                                       Ingi Tandri Traustason. Varaforseti Kotrusambandsins. Þeir sem til þekkja vilja meina að eftirnafn mitt sé Anderson- Pfeiffer. Gælunafnið í kotrunni er „The Speedgammon Machine“

2) Staða í liðinu?                                                                                                                                           Ég er Íslandsmeistari skilurru?

3) Kotrustig?                                                                                                                                              1668

4) Hvernig hefur undirbúningi þínum verið háttað?                                                                              Ég hef æft vel í sumar. Ég hef líka undirbúið mig andlega með fjölskyldunni. Við fórum í fjölskylduferð norður þar sem ég smakkaði Brynjuís í fyrsta skipti svo ég muni. Ég fékk mér miðstærð í brauðformi og get staðfest að þetta er ís. Svo fórum við í sund á Þelamörk og þar slasaði ég mig á fæti og hef verið frá meira og minna síðan.

5) Hvaða persónulega árangri í Budapest stefnir þú að?                                                                      Ég ráðlegg engum að setjast á móti mér við kotruborð, sérstaklega ekki á Evrópumóti.

6) Hvaða árangri telur þú að raunhæft sé fyrir Kotrulandsliðið að stefna að á EM2015?             Við stefnum á undanúrslitum og munum gera allt til þess að það náist.

7) Varstu ánægður með Körfuboltalandsliðið á EM?                                                                          Þeir voru flottir og áhorfendur glæsilegir.

8) Ætlar þú til Frakklands næsta sumar? Ég kemst sennilega ekki með vegna fyrrgreindra meiðsla. Til hamingju Eiður.

9) Ef þú mættir velja einn mann í landslið, hverjum myndir þú bæta við?                                     Það eru margir kallaðir þar,  ég get nefnt Stefán Frey, Danna Tjokko, Gus Hansen og krúttið okkar allra hann Aron Inga sem dæmi. Gísli Hrafnkelsson hlýtur að vera mitt val enda einstakt ljúfmenni þar á ferð. En ekki láta fallegt brosið plata ykkur, hann drepur fólk á kotruborðinu. Annars vildi ég hafa konu í liðinu, því þær eru margar mjög efnilegar á Íslandi og mættu gjarnan vera duglegri að mæta á mót.

10) Hvenær lærðir þú kotru?  Ég lærði mannganginn í kotru þann 12. September árið 2001. Ég fór með vinnufélaga mínum á ónefnda knæpu í miðbæ Reykjavíkur og þar lærði ég mannganginn undir lagi Leonards Cohen „First we take Manhattan then we take Berlin“. Það var svo ósiðlegt að spila það þennan dag að það fór hringinn. Ég byrjaði hins vegar ekki að pæla neitt  í kotru fyrr en árið 2009.

11) Ertu ánægður með liðsandann?                                                                                                        Andinn er góður þó þetta séu upp til hópa leiðindagaurar.

12) Hversu miklu máli skiptir stuðningur áhorfenda? Öllu. Ingvar „XZibbit“ Jóhannesson fór beint frá Hollandi til Berlínar. Ég á ekki von á öðru en hann mæti til Búdapestar á föstudaginn. Þorgerður Katrín og Ólafur Ragnar mæta svo ásamt þúsundum annarra þegar við verðum komnir í undanúrslit.  Ég vil samt koma því á framfæri að það fær enginn að borða með okkur. Við getum hins vegar tekið við orðunni hans Óla þann 25. September.

13) Er kotra ekki bara heppni? Eða er hún bara fyrir reiknismeistara?  Kotra er fyrir alla, það er heppni í henni og það er mjög heillandi. Það er gott að vera góður í stærðfræði og hafa gott minni en það þarf marga aðra kosti til að verða góður kotruspilari.

14) Hvernig viltu spila kotru? Ertu árásargjarn, varfærinn eða þar mitt á milli?                                    Hvað á þessi fáránlega spurning að þýða?

15) Finnst þér gaman að dobbla?                                                                                                                Oftast, en mér finnst ennþá skemmtilegra að taka dobbli og redobbla svo fljótlega.

16) Hjúskaparstaða?                                                                                                                                         Í sambúð með hinni gullfallegu og frábæru Selmu Leifsdóttur.

17) Börn? Hvað heita þau?                                                                                                                    Brynja Vigdís 7 ára og Iðunn Bóel 5 mánaða. Þær eru töffarar og Brynja er framtíðarlandsliðsmaður í kotru ef hún vill. Iðunn hefur hins vegar ekki sýnt þær framfarir í kotrunni sem til þarf enn.

18) Hverjir vinna EM2015 í Budapest?              Það eru mörg góð lið þarna og við þurfum að vera í okkar allra besta formi. Ég ætla tvítryggja þetta á Dani og Frakka og reyna að hægja aðeins á væntingum þjóðarinnar.

19) Eitthvað að lokum?  Það mikilvægasta til að verða betri í kotru er að spila við þá bestu sem maður getur nálgast. Ég vil því hvetja alla áhugasama til að mæta á mót Kotrusambandsins í vetur. Þau verða auglýst hér á Kotra.is og einnig á Facebook síðu sambandsins sem þú finnur með því að slá inn Kotrusamband Íslands. Svo vil ég minna á að það er ekki lítið afrek fyrir litla þjóð að komast inn á Evrópumót í þremur vinsælustu boltaíþróttum karla í álfunni. Að auki eigum við lið á evrópumótum í þremur af fjórum vinsælustu hugaríþróttum heims. Ég er stoltur af þessu, verið þið það líka. Áfram Ísland.                                                                                                                                                                                                                                                               Ingi Tandri Traustason