Yfirheyrslan

Yfirheyrslan

2349
Deila

Lesendur góðir, Kotrusambandið kynnir til leiks markþjálfann og eðalmennið Kjartan Maack, en hann hefur í sumar verið með landsliðshópinn undir sinni faglegu handleiðslu.

 1. Nafn? Kjartan Maack.
 2. Staða í liðinu? Markþjálfi.
 3. Kotrustig? Óbeisluð snilligáfa mín við kotruborðið hefur ekki enn verið mæld með þar til gerðum mælitækjum.
 4. Hvernig hefur undirbúningi þínum verið háttað? Fræðigrunnur liðsheilda og árangursstjórnunar aðlagaður að Kotrulandsliðinu á fundum með landsliðsmönnum.
 5. Hvaða persónulega árangri í Budapest stefnir þú að? Að landsliðið nái markmiðum sínum og landsliðmenn gangi sáttir frá borði.
 6. Hvaða árangri telur þú að raunhæft sé fyrir Kotrulandsliðið að stefna að á EM2015? Undanúrslit.
 7. Varstu ánægður með Körfuboltalandsliðið á EM? Geysistoltur af strákunum.
 8. Ætlar þú til Frakklands næsta sumar? Ef Lars og Heimir velja mig í hópinn þá mun ég íhuga það.
 9. Ef þú mættir velja einn mann í landslið, hverjum myndir þú bæta við? Eiður Smári Guðjohnsen væri góður kostur.
 10. Hvenær lærðir þú kotru? Fyrir 2 árum.
 11. Ertu ánægður með liðsandann? Heldur betur. Strákarnir hafa skapað andrúmsloft þar sem uppbyggilegur ágreiningur þrífst. Það er lykilatriði hjá árangursríkum liðsheildum.
 12. Hversu miklu máli skiptir stuðningur áhorfenda? Gæti haft úrslitaáhrif. Legg því til að Tólfan verði flutt út til Búdapest með trommur og vúvúzela lúðra til að styðja strákana í baráttunni.
 13. Er kotra ekki bara heppni? Eða er hún bara fyrir reiknismeistara? Heppni er þar sem undirbúningur og tækifæri koma saman. Að viðbættu þéttu sjálfstrausti þá byrja teningarnir að hlýða meistara sínum.
 14. Hvernig viltu spila kotru? Ertu árásargjarn, varfærinn eða þar mitt á milli? Ég fer mér að engu óðslega í Kotru sem og öðrum keppnum. Menn verða að vanda til verka.
 15. Finnst þér gaman að dobbla? Að dobbla er góð skemmtun. Ég dobbla til dæmis alltaf G&T á barnum.
 16. Hjúskaparstaða? Einstæður faðir á hátindi ferils síns.
 17. Börn? Hvað heita þau? 10 ára náttúrufræðingur að nafni Stefán Gunnar.
 18. Hverjir vinna EM2015 í Budapest? Ísland.
 19. Eitthvað að lokum? Skora hér með á RÚV að sýna beint frá EM í Kotru. Betra sjónvarpsefni er vandfundið.