Það eru ekki bara körfubolta- og knattspyrnulandslið Íslands sem baða sig í dýrðarljóma Evrópumeistaramóta þessi misserin. Kotrulandsliðið er á leið á EM í Búdapest um næstu helgi. Þessari 5.000 ára gömlu hugaríþrótt vex nú fiskur um hrygg, hér heima sem erlendis, og Róbert Lagerman landsliðseinvaldur og Bjarni Freyr Kristjánsson, forseti Kotrusambands Íslands, segja markið sett hátt á EM.
Ísland sendi í fyrsta skipti lið á Evrópumeistaramótið í fyrra en þá fór það fram í Dubrovnik í Króatíu. Átta þjóðir áttu lið á mótinu og gekk því íslenska ljómandi vel. Var hársbreidd frá því að leika um bronsið. „Það munaði grátlega litlu,“ segir Bjarni en búist er við sextán liðum að þessu sinni.
Spilað er á sjö borðum en átta leikmenn fara utan. Landsliðið var valið í byrjun sumars og hófust vikulegar æfingar þegar í stað. Þá fékk landsliðið Kjartan Maack markþjálfa til liðs við sig og segja Bjarni og Róbert hann hafa hjálpað liðinu mikið við undirbúninginn. „Kjartan hefur aðstoðað okkur við að þétta raðirnar, setja okkur markmið og opnað augu okkar fyrir ýmsum hlutum. Á heildina litið er undirbúningur liðsins mun betri en í fyrra og óhætt að segja að við mætum vel þjálfaðir til leiks,“ segir Bjarni og Róbert bætir við að nú sé tækifæri til að stimpla sig rækilega inn í evrópska kotrusamfélagið.
Þeir segja fegurðina í kotrunni ekki síst byggjast á því að nánast hver sem er getur sest niður andspænis heimsmeistaranum og unnið, að minnsta kosti eitt sett. „Þetta væri aldrei hægt í skák. Það sest ekki hver sem er niður með Magnúsi Carlsen og vinnur,“ segir Róbert.
Settin eru mismörg í hverjum leik í kotru, á EM eru þau til dæmis fimmtán, sem Bjarni og Róbert fullyrða að geri það að verkum að viðvaningar geti ekki unnið vana leikmenn í heilum leik enda þótt þeir geti haft betur í setti og setti. Heppnin dugi mönnum einfaldlega aðeins visst langt. „Því fleiri sem settin eru, þeim mun skemur dugar heppnin,“ segir Róbert.
Nánar er rætt við Róbert og Bjarna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.